Góðan dag.

Nú eru stjórnvöld að opna landfræðileg gögn sín að auknu leyti og þau
munu örugglega þurfa á leiðsögn að halda. Í samskiptum við stjórnvöld er
meira tekið mark á félagasamtökum en einstaklingum. Því legg ég til að
annaðhvort ætti að vera stofnaður formlegur félagsskapur OSM innan FSFÍ
(Félags um Stafrænt Frelsi á Íslandi) eða stofnuð verði sér félagasamtök
um málefni OSM á Íslandi.

Í framkvæmdaáætlun um upplýsingasamfélagið 2013-1016
(http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2013/Voxtur-i-krefti-netsins---framkvaemdaaaetlun.pdf)
er meðal annars tekið á því að opna skuli landfræðilegar upplýsingar á
sviði ríkis og sveitarfélaga. Tel ég að hagsmunir frjálsra kortaverkefna
eins og OpenStreetMap séu betur tryggðir ef stjórnvöld séu í samvinnu
við félagasamtök frekar en ‚einstaklinga út í bæ‘.

Atriði í verkefnastofni 2 í framkvæmdaáætluninni, titlaður ‚Opin og
gegnsæ stjórnsýsla‘:
* Mótuð verði stefna um opin gögn og kortlagt verði hvaða gagnagrunnar
verða í forgangi
* Sett verði upp miðlæg gátt fyrir opin gögn á íslandi og útbúnir
leyfissamningar fyrir opin gögn
* Opinberar stofnanir fái leiðsögn og stuðning við opnun gagna og gagnasafna
* Tryggð verði samræmd innkaup á sviði landupplýsinga
* Landfræðileg gögn ríkis og sveitarfélaga verði opnuð
* Unnið verði að söfnun örnefna og opnað fyrir aðgengi að þeim

Í þessu ferli skiptir miklu máli að stjórnvöld vinni að því að gögnin
teljist opin í merkingunni að þau séu frjáls. Við viljum auðvitað
tryggja að niðurstaðan verði sú að gögnin geti verið innleidd í OSM eða
sem næst því markmiði. Með þetta til hliðsjónar og að mörg atriðanna í
verkefnastofni 2 koma að opnun landupplýsinga hins opinbera tel ég miklu
máli skipta að einhver fulltrúi OSM samfélagsins á Íslandi komi að
ferlinu. Sé fulltrúinn af hálfu félagasamtaka er miklu líklegra að orð
hans hafi meira vægi.

Hvað finnst ykkur um þessa uppástungu mína?

Með kveðju,
Svavar Kjarrval

Attachment: signature.asc
Description: OpenPGP digital signature

_______________________________________________
Talk-is mailing list
Talk-is@openstreetmap.org
http://lists.openstreetmap.org/listinfo/talk-is

Reply via email to